150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[09:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurn sem varðar málefni þróunarsamvinnu. Hv. þingmaður segir að honum finnist ógeðfellt að miða við hlutfall af landsframleiðslu, (LE: Nei.) þ.e. að sú tilfærsla sé ógeðfelld. Hv. þingmaður skýrir það. En í öllu falli er það svo, og kom mjög skýrt fram við afgreiðslu fjárlaganefndar hér í vor, að framlög til þróunarsamvinnu verða endurskoðuð við vinnslu þessa fjárlagafrumvarps til að við stöndum við þau markmið sem við höfum sett fram í þróunarsamvinnuáætluninni sem Alþingi samþykkti, að framlög til þróunarsamvinnu uppfylli það hlutfall af landsframleiðslu sem þar er gefið upp. Ég legg áherslu á að það verði gert.

Hv. þingmaður spyr: Hvað ætlar forsætisráðherra að gera? Ég legg áherslu á að þeim vilja Alþingis sem birtist í nefndaráliti fjárlaganefndar og samþykkt þróunarsamvinnuáætlunar verði fylgt. Hann birtist líka í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem talað er um að þau framlög verði 0,33% — nú man ég ekki árið, mig minnir að það hafi verið lagt fram við lok kjörtímabils en þori þó ekki alveg að fara með það.

Ég segi við hv. þingmann: Ég hefði kosið að þau mál gengju hraðar á undanförnum árum því að við vitum alveg að markmiðið, og ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um það, er 0,7% af vergri landsframleiðslu. Þar náum við t.d. ekki að fylgja Dönum, svo að ég taki þá sem dæmi, sem hafa lagt mikla áherslu á að uppfylla þetta markmið, eða Bretum. Ég vek athygli á því að þau mál hafa ekki fylgt einhverjum hægri/vinstri pólitískum línum heldur hefur þetta verið áhersla hjá þeim þjóðum. Ég tel að við getum að sjálfsögðu gert betur. Við gerum betur í þeim áætlunum sem við erum með en ég er sammála hv. þingmanni, þetta er mál þar sem við getum gert enn betur.