150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[09:56]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir yfirferðina. Hún nefndi í ræðu sinni hversu sterk staða ríkissjóðs væri, sem er sannarlega rétt, og ánægjulegt er að sjá hvernig það endurspeglast í nýbirtum ríkisreikningum. Það er líka ánægjulegt að sjá að líklega í fyrsta skipti í hagsögunni vinna opinber fjármál saman með peningastefnunni. Eins og líklega flest okkar hérna inni bind ég miklar vonir við nýsamþykkta lífskjarasamninga og mér fannst að einhverju leyti ótrúlegt en fyrst og fremst mjög gleðilegt að þar sameinuðust allir um mikilvægi þess að lækka skatta á launafólk. Að sjálfsögðu er útfærslan með þeim hætti að það kemur best út fyrir þá sem minnst hafa og mér finnst ótrúlega mikilvægt að við séum komin á þann stað að Samtök atvinnulífsins, verkalýðshreyfingin og stjórnvöld hafi sameinast um þennan mikilvæga þátt. Þá lækkaði líka tryggingagjaldið í þessu frumvarpi eins og stefnt hefur verið að og ég veit að atvinnulífið kallar eftir enn frekari lækkun á því.

Mig langar að biðja forsætisráðherra að fara örlítið yfir helstu þættina í lífskjarasamningunum og hvernig þeir birtast okkur hér og þá er ég kannski fyrst og fremst að hugsa um hag hins almenna íbúa, umfram það sem skattalækkanir gefa. Ég held að fæðingarorlofið skipti þar stóru máli. Það spilar stórt hlutverk í einu af okkar mikilvægustu málum sem eru jafnréttismálin, og fyrir velsæld fjölskyldunnar.

Mig langar líka að biðja forsætisráðherra að fara aðeins yfir það sem var mikið til umræðu í gær og hún kom reyndar örlítið inn á það í ræðu sinni, þ.e. á hverju við byggjum fjárlögin. Jú, við erum með spá frá Hagstofunni. Ég ætla ekki að gefa mér að einstaka þingmenn hafi meira til þess máls að leggja hvernig hagvöxtur verði hér og hvaða þróun við sjáum. En það breytir þó ekki þeirri staðreynd að auðvitað hefur það sem við gerum hér áhrif á hagspána þannig að þetta er alltaf einhver hringrás og kannski þurfum (Forseti hringir.) við að þróa enn frekar þau módel sem við vinnum með hvað það varðar.