150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[09:58]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni athugasemdina. Ég tel að sú útfærsla sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur kynnt á skattbreytingum sé mjög jákvæð. Við töluðum um það í stjórnarsáttmála að við vildum sjá skattalækkanir á kjörtímabilinu. Ég tel að þessi útfærsla muni gagnast þeim best sem á þurfa að halda, þ.e. tekjulægstu hópunum, þeirra skattar lækka hlutfallslega meira. Við innleiðum aftur þrískipt skattkerfi, þrepaskipt skattkerfi, en stillum þrepamörkin þannig að þau fylgi annars vegar framleiðni og hins vegar verðbólgu. Þetta er nýlunda þar sem við vorum með kerfi þar sem efra þrepið fylgdi launavísitölu og hið neðra neysluvísitölu, sem gerði að verkum að myndin skekktist yfir árin, þeim tekjuhærri til hagsbóta. Þetta er eitt af því sem hefur verið mjög mikið rætt af hálfu forsvarsmanna verkalýðshreyfingarinnar og ég vonast til þess að það náist sátt um þessar breytingar sem svo sannarlega koma tekjulægri hópum til góða.

Tryggingagjaldið nefndi líka hv. þingmaður, og ég ítrekaði það í minni ræðu, en um leið þurfum við að horfa á það í samhengi við áform um að lengja fæðingarorlof, sem er gamalt baráttumál. Ég tel að það skipti gríðarlegu máli þegar við skoðum stöðu ungs fólks, sem er nú það fólk sem eignast flest börnin á Íslandi, og skoðum t.d. þróun ráðstöfunartekna þess í gagnagrunni Tekjusögunnar. Þar kemur fram að þessi hópur hefur setið eftir þegar við skoðum þróun síðustu áratuga í ráðstöfunartekjum. Þetta er eitt af því sem skiptir máli þegar við erum að taka ákvarðanir. Lenging fæðingarorlofs og brúun umönnunarbilsins, þ.e. á milli fæðingarorlofs og leikskóla sem sveitarfélögin reka, er nefnd sem ein lykilaðgerðin í skýrslu um fátækt barna á Íslandi þegar rætt er um til hvaða aðgerða er hægt að grípa til að draga úr fátækt barna, sem er skýrt markmið. Við eigum að útrýma fátækt barna og lenging fæðingarorlofsins er stór liður í því.