150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemdina. Við vorum auðvitað að samþykkja ný upplýsingalög í vor og ég bind miklar vonir við innleiðingu þeirra. Nú þegar hefur verið skipað í stöðu ráðgjafa um upplýsingarétt almennings sem mun taka fyrstu skrefin í því að stuðla að aukinni fræðslu, ekki bara til almennings heldur í stjórnkerfinu öllu, um inntak upplýsingalaga. Ég tel að lögin feli í sér margvíslegar úrbætur, ekki síst vegna þess, eins og hefur komið fram í máli forseta Alþingis, að stjórnsýsla Alþingis færist nú undir upplýsingalög sem og stjórnsýsla dómstóla, en miklu ríkari frumkvæðisskylda er lögð á ráðuneyti að birta upplýsingar. Þetta hefur auðvitað skapað þær áhyggjur að mjög mikil vinna muni fara í að birta upplýsingar og vafalaust mun þetta skapa álag á stjórnsýsluna. En ég er algerlega sannfærð um að til lengri tíma litið mun þetta í raun og veru draga úr vinnu vegna meðferðar upplýsingamála því að ég tel að línurnar séu þá orðnar mjög skýrar um hvað ráðuneytin skuli eiga frumkvæði að því að birta. Það auðveldar aðgengi almennings að upplýsingum og kemur vafalaust í veg fyrir fjöldann allan af óþörfum fyrirspurnum, tel ég. Þannig að ég held að við séum að taka rétt skref. Við erum í þessum málum að fylgja fordæmi Noregs sem hefur verið talið hvað framsæknast landa í þessu máli.

Hv. þingmaður spyr: Mun þetta eiga við um ráðherra í ríkisstjórn? Ráðherrar í ríkisstjórn eru mjög meðvitaðir um þær breytingar sem hafa verið gerðar á upplýsingalögum. Ráðgjafinn sem nú er um þessi mál mun eiga fund með öllum ráðuneytum þar sem verður farið yfir þessar breytingar. Þetta mun ekki gerast yfir nótt. Við tökum okkur tíma til að innleiða þetta. En ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta mun verða mikið framfaraspor fyrir bæði íslenskan almenning og íslenska stjórnsýslu og það er mjög við hæfi að þetta gerist á 25 ára afmæli stjórnsýslulaganna sem er einmitt í ár.