150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í gegnum tíðina hefur sú kenning verið vinsæl, með réttu að mínu mati, að í uppsveiflu beri að draga úr ríkisumsvifum og útgjöldum ríkisins, hækka skatta og eitthvað því um líkt, en svo þegar taki að halla undan fæti í hagkerfinu beri ríkinu að gefa aðeins í, auka útgjöld og lækka skatta og þess háttar. Ég aðhyllist þessa tilgátu í meginatriðum, hef alla vega ekki séð nein sterk rök eða gögn gegn henni. En mér finnst hins vegar stundum skorta á að við þróum þessa tilgátu yfir á næsta stig, lengra inn í framtíðina og meira með hliðsjón af því hvernig við förum með náttúruna. Með náttúrunni á ég við loftslagið sérstaklega, ég er að tala um loftslagsbreytingar.

Núna er umburðarlyndi fyrir auknum útgjöldum vegna slaka í hagkerfinu. Mér sýnist flestir vera á sömu línu hvað það varðar að það sé skynsamlegt að auka útgjöld núna, jafnvel svokallaðir hægri menn sætta sig meira við það núna en ella. En það þarf meira til, það þarf fjárfestingar í innviðum og því um líkt sem eru hluti af því. En með tilliti til loftslagsbreytinga sérstaklega og þess viðbúnaðar sem við þurfum að hafa áratugi inn í framtíðina velti ég fyrir mér: Er þetta ekki rétti staðurinn til þess að gera loftslagsbreytingar að þungamiðju í samfélagslegri áætlanagerð? Það er núna sem við þurfum að fara að fjárfesta í tækni til að takast á við loftslagsbreytingar. Það er núna sem við þurfum að huga að því að það verður aukinn kostnaður vegna loftslagsbreytinga, t.d. vegna hækkunar olíuverðs eða vegna grænna skatta eða hvaðeina. Sömuleiðis er einn iðnaður sem mun dragast saman. Það er fyrirséð að á ýmsum sviðum landbúnaðarins verði ekki hægt að starfa í sama mæli í framtíðinni og nú. Við höfum einfaldlega ekki nógu mikið loftslag til þess. En á móti kemur eitthvað eins og kjötrækt eða aukin grænmetisframleiðsla. Mér finnst svolítið vanta upp á að sjá loftslagsbreytingar sem þungamiðju í samfélagslegri áætlanagerð þegar kemur að fjárlögum og fjármálum ríkisins almennt. Mig langaði að inna hæstv. ráðherra eftir viðbrögðum við þessu.