150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp loftslagsmálin. Mín skoðun er sú að rétt eins og við höfum gert með jafnréttismálin þurfi loftslagsmálin að vera eitthvað sem við vinnum að á hverjum einasta punkti, á öllum vígstöðvum, í hverju ráðuneyti. En um leið tel ég það vera mjög jákvætt sem við sjáum í bæði loftslagsáætluninni sjálfri og fjármálaáætluninni, það sem við erum að gera, sem ég tel vera skýr og mjög markviss skref til þess að berjast gegn áhrifum loftslagsvárinnar. Ég vil nefna að ríkisstjórnin kynnti núna 450 millj. kr. í styrki til orkuskipta í samgöngum. Það sem er sérlega ánægjulegt er að einkaaðilar eru að koma inn í það átak þannig að við erum að sjá hugsanlegar fjárfestingar sem gætu numið allt að milljarði á árunum 2019 og 2020 til að flýta orkuskiptum í samgöngum. Til að mynda hafa þær ívilnanir sem við höfum verið með gagnvart rafknúnum ökutækjum verið upp á u.þ.b. 3 milljarða á ári, í því skyni að fjölga þeim. Við ætlum að kynna ívilnanir líka fyrir rafknúin hjól og hjólatæki, það eru svona ólík rafhjól. Allt hjálpar þetta til. Þetta segir þá sögu að við erum að aðlaga okkar kerfi með grænum ívilnunum en líka grænum sköttum, sem voru aðeins ræddir í gær, til að takast á við loftslagsmálin.

Hv. þingmaður nefnir sérstaklega rannsóknir og tæknibreytingar í þessu máli. Við höfum ákveðið á vettvangi Vísinda- og tækniráðs að forgangsraða fjármunum sérstaklega til rannsókna á loftslagsmálum, því að það er sú samfélagslega áskorun sem við metum mikilvægasta núna. Við erum að forgangsraða fjármunum inn í þær rannsóknir. Við sjáum líka mjög mikla áherslu hjá ýmsum nýsköpunarfyrirtækjum á aukna nýsköpun í þessum málum. Ég nefni verkefni sem er farið að kynna víða um heim, sem er auðvitað CarbFix verkefnið þar sem er verið að dæla kolefni niður í berg og umbreyta því aftur í berg. (Forseti hringir.) Árangur mun ekki nást nema við séum, einmitt eins og hv. þingmaður nefnir, með samhæfðar aðgerðir á mjög fjölbreyttum sviðum. (Forseti hringir.) En vissulega tekur tíma að ná þeirri samhæfingu fram.

(Forseti (SJS): Forseti mun standa við orð sín um lítið umburðarlyndi gagnvart því að menn fari fram yfir ræðutíma.)