150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:16]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemdina. Ég vissi að bara með því að nefna spá Hagstofunnar myndi ég særa hann hingað upp þannig að þetta gengur allt eins og það átti að gera. En auðvitað leggjum við hana til grundvallar. Hv. þingmaður spyr: Þarf ekki að skoða fleiri þætti? Þarf ekki að gæta varfærni? Ég tel að við séum að gera það. Ég tel að til að mynda það að auka opinbera fjárfestingu núna — við getum deilt um hvort nóg sé að gert í því — sé algjört lykilatriði til að mæta slaka í hagkerfinu. Opinber fjárfesting hefur verið langt fyrir neðan sögulegt meðaltal á undanförnum árum. Við erum að spýta í. Ég held að það sé rétt aðgerð. Mér heyrist hv. þingmaður vera mér sammála um það.

Hv. þingmaður var nú gagnrýninn á aðdraganda kjarasamninga fyrir of mikla aðkomu stjórnvalda. Ég tel að aðkoma stjórnvalda hafi skipt mjög miklu máli fyrir niðurstöðuna. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera mér sammála um að vinnumarkaðurinn er breyta sem verður ekki tekin út úr hagstjórninni. Við þurfum að hafa hann undir. Það er ekki nægjanlegt að vera með ríkisfjármál. Við þurfum að hafa peningastefnu sem vinnur með ríkisfjármálum. Stefna í vinnumarkaðsmálum þarf sömuleiðis að vera hluti af þessu. Ég hef sagt það áður að við höfum verið í ákveðnu lærdómsferli þegar kemur að lögum um opinber fjármál, ég skal vera fyrst til að segja það hér og ég held að allir þingmenn deili þeirri skoðun. Þessi lög voru samþykkt fyrir fjórum árum. Ég tel að við séum að vinna betur og betur með þessi lög ár frá ári. Ég tel sömuleiðis að það sem hefur gerst á vinnumarkaði, sú mikilvæga breyta, og það sem við höfum séð gerast hjá Seðlabankanum sýni að allir þessir þrír þættir séu að vinna saman.

Við getum deilt um hvort opinber fjárfesting ætti að vera meiri eða minni en hugsunin á bak við opinber fjármál hlýtur líka að vera sú að þegar við skilum afgangi erum við að safna í sarpinn til að geta haft einhvers konar (Forseti hringir.) sveiflujöfnun inni í fjármálunum.