150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:19]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið og auðvitað tekst henni að særa mig í aðeins lengri umræðu um þetta en ég ætla samt að reyna að hemja mig til að gleyma ekki hinni spurningunni. Kjarni máls er þessi: Það er verið að auka ríkisútgjöld milli ára um 70 milljarða. Það er verið að skila, í samræmi við samþykkta fjármálastefnu, afgangi upp á núll eða því sem næst. Mín gagnrýni snýr einfaldlega að því að við munum áfram þurfa að skila afgangi á fjárlögum upp á núll og ef efnahagsforsendur reynast vera lakari en hér er gert ráð fyrir og við þurfum að endurmeta í nóvember, þá þarf einfaldlega að skera verulega niður í þeim útgjaldaloforðum sem hér er verið að veita. Það býst ég fastlega við að verði raunin. Ég ætla ekki að lengja mál mitt um það frekar en við komum að því í nóvember.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra út í málaflokk sem við deilum miklum áhuga á sem eru jafnréttismálin, kannski ekki hvað síst með tilliti til stöðu kvennastétta í landinu. Nú eru kjarasamningar við opinberu samtökin enn ófrágengnir. Til ríkisstjórnarinnar var vísað þingsályktun um sérstakt átak til að bæta kjör kvennastétta og ég heyri á samtölum mínum við forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar, sérstaklega á opinbera markaðnum, að þó að eitt og hálft ár sé liðið frá því að málinu var vísað til ríkisstjórnarinnar hefur það ekkert verið rætt. Það hefur ekki verið boðað til neinna funda með verkalýðshreyfingunni til þess að ræða með hvaða hætti væri mögulega hægt að bæta úr. Ég velti fyrir mér varðandi forsendur fjárlaga: Er eitthvert svigrúm í launaforsendum fjárlaga til að gera hér bragarbót? Þetta er ein stærsta ástæðan fyrir þeim kynbundna launamun sem við búum enn þá við og er gríðarlega mikilvægt að rétta af, enda er hér um mjög mikilvægar stéttir að ræða eins og kennara og umönnunarstéttir. Við getum öll verið sammála um að án þeirra getum við ekki verið. Laun þeirra með hliðsjón af menntun eru einfaldlega ekki réttlát og sanngjörn þegar (Forseti hringir.) við berum þau saman við mjög fjölmennar karlastéttir.