150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:21]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og vil ítreka það út af fyrra málinu að auðvitað ríkir alltaf einhver óvissa um þróun efnahagsmála. Það vitum við, verandi lítið hagkerfi, að óvissan er meiri hér sögulega og verður meiri ef við miðum okkur við stærri hagkerfi sem eru öðruvísi samsett. Að sjálfsögðu erum við meðvituð um að það er alltaf óvissa. En eigi að síður tel ég að spá Hagstofunnar eigi að vera grunngagn í þessu. Við erum auðvitað háð ýmsu sem gerist á alþjóðavettvangi. Mikið hefur verið rætt, til að mynda, um viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína í því samhengi, sem hefur veruleg áhrif á eina útflutningsgrein hjá okkur sem er áliðnaðurinn. Þannig að ég ætla ekki að standa hér og láta eins og við séum eitthvert eyland í þessu samhengi, að það séu engar forsendur sem geti valdið aukinni óvissu. Svo sannarlega er það ekki svo. En ég held hins vegar að við séum að nýta þau tæki og tól sem við eigum til þess að reyna að skapa aukinn stöðugleika. Ég hef litið á það sem ákveðið lærdómsferli sem ég tel að við séum að taka framförum í.

Hvað varðar kvennastéttirnar sem hv. þingmaður nefnir, sem er auðvitað mjög mikilvægt mál, hafa bæði hæstv. heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra staðið fyrir vinnu til að huga sérstaklega að starfskjörum og starfsaðstæðum annars vegar kennara og hins vegar heilbrigðisstétta. Ég veit að heilbrigðisráðherra hefur vegna bókunar sem gerð var við kjarasamninga BHM og varðar sérstaklega mönnun og starfskjör heilbrigðisstétta verið að undirbúa tillögur sem ég tel að hafi verið unnar í samráði við geirann. En þetta er auðvitað risamál því það tengist ekki bara kjörum kvennastétta, sem eru mjög mikilvægur þáttur, heldur líka mönnunarvanda innan heilbrigðiskerfisins, vanda sem við deilum raunar með öðrum Norðurlöndum, því miður. Það kallar á að við horfum á þetta ekki eingöngu út frá kjörunum heldur líka út frá stóru myndinni þegar kemur að starfsaðstæðum. Ég tek undir með hv. þingmanni (Forseti hringir.) að þetta er risamál. Ég veit að það er vinna í gangi en mun að sjálfsögðu leita upplýsinga um hvar hún sé stödd eftir spurningu hv. þingmanns.