150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:40]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er í rauninni ekki verið að boða ákveðna gjaldtöku á greinina í þessu fjárlagafrumvarpi en það eru ákveðnar undirliggjandi forsendur í tengslum við fjármálaáætlun. Við erum með hóp að störfum til að taka utan um þessa eilífu gjaldtökuumræðu og ég geri ráð fyrir því að þeirri vinnu muni ljúka og það muni fara inn í langtímastefnumótunina. Ég sjálf lít svo á í sambandi við stýringu almennt á ferðamannastaði að gjaldtaka sé ein leið til stýringar og það er það leiðarljós sem við höfum almennt og mun reyna á í einhverjum mæli, mismunandi eftir stöðum o.s.frv. Ég hef sérstaklega látið skoða í þessum hópi gistináttaskattinn, þ.e. hverjir greiða hann ekki, til að mynda skemmtiferðaskip og þeir sem leigja á Airbnb, og hvort mögulega sé hægt að breikka þann skattstofn, bæði til þess að breikka hann en ekki síður til að jafna samkeppnisstöðu þeirra sem eru á þeim markaði. En áform um sérstök önnur gjöld liggja ekki fyrir. Það þyrfti að skoða mjög vel. Mín skoðun er sú að rekstrarhorfur til að mynda á flugmarkaði segi okkur að það þyrfti að skoða mjög vel ef slík áform væru fram undan. Í fjárlagafrumvarpinu er ekki boðuð nein sérstök gjaldtaka í ferðaþjónustu, en það hafa verið ákveðnar undirliggjandi forsendur og þær eru þá í samhengi við þá vinnu sem unnið er að á þeim vettvangi.