150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:44]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og hún er mjög mikilvæg. Við vitum auðvitað að það er mun meira álag og enn þá mun meiri eftirspurn á suðvesturhorninu og Suðurlandinu, en við höfum þó líka séð miklar og góðar breytingar hvað það varðar. Þetta er að færast og Snæfellsnes er í dag til að mynda mun heitari ferðamannastaður en það var fyrir ekki svo löngu síðan, Norðurland sömuleiðis og það teygir anga sína bæði í norður og norðaustur o.s.frv. Þetta er þróun í rétta átt. Ég hafði miklar áhyggjur af því að það högg sem við urðum fyrir nú myndi hafa verri áhrif á jaðarsvæðin en vísbendingar gefa til kynna að sé raunverulega staðan.

En við höfum tól til að vinna í þessu. Eitt er markaðssetning. Annað eru markaðsstofurnar sem gegna lykilhlutverki á slíkum svæðum víða um land og þróun þeirra í að verða einhvers konar áfangastofur finnst mér skipta mjög miklu máli. Ég held að þær muni til framtíðar gegna veigameira hlutverki en þær gera í dag og þær eru algjör lykilþáttur í þróun okkar á áfangastaðnum Ísland, þ.e. að það séu áfangastaðir um landið allt.

Stýring, sem ég nefndi áðan, er síðan annað dæmi, bæði til að létta álaginu á fjölsóttustu ferðamannastöðunum til að vernda náttúruna og passa álagið og tryggja jákvæða upplifun ferðamanna þannig að áfangastaðurinn Ísland hafi áfram þau góðu meðmæli og skor sem hann hefur í dag, en líka til að tryggja að landsmenn allir njóti góðs af þessari uppbyggingu. Við finnum síðan að markaðurinn sjálfur leitar á nýrri mið og ferðamenn sem hingað koma vilja fá að sjá það sem er nýtt, vilja gjarnan fara á staði sem eru fáfarnari og minna þekktir þannig að ég trúi því að þetta gerist. Allar okkar aðgerðir eru markvisst til að reyna að dreifa ferðamönnum víðar um landið (Forseti hringir.) og það er algert lykilatriði að þessi stærsta atvinnugrein landsins þróist þannig og byggist upp að hún sé úti um allt land svo landsmenn allir njóti góðs af.