150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:53]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Forseti. Fyrst aðeins til að svara því hvort það sé áfram stefna ríkisstjórnar að fjölga gáttum, er það klárlega áfram stefna ríkisstjórnar að gera það. Um markaðssetninguna, jú, við setjum áfram fjármuni í það. Það eru alltaf fyrstu viðbrögð þegar hlutirnir breytast að það vanti frekari fjármuni í markaðssetningu. Ég hef lagt áherslu á að það skipti meira máli að vera viss um í hvað fjármunirnir fara og það sé í samhengi við t.d. flugframboð, hvar séu sæti, en ekki að við séum bara að fara í markaðssetningu af því að það eru fyrstu viðbrögð þegar eitthvað bjátar á og eitthvað breytist. Auðvitað þurfum við alltaf að vinna að ímynd landsins og ákveðinni söludrifinni markaðssetningu, en það eru líka aðrir þættir, aðrir áhrifavaldar sem hafa mikil áhrif á það hverjir koma, hvaða staðir eru heitir, til að mynda umfjöllun um landið, líkt og hv. þingmaður kom inn á, og ferðahegðun. Sem betur fer er það þannig að þrátt fyrir að vöxturinn sé að minnka í komum ferðamanna þá eyða þeir meiru og dvelja lengur. Það var komið inn á krónuna og hluti af því að ferðamenn eyða meiru eru auðvitað breytingar á gjaldmiðlinum.

En aðeins um nýsköpunarstefnuna, sem er auðvitað efni í mun lengra svar. Ef ég skildi hv. þingmann rétt fara sumir þættir í nýsköpunarstefnunni undir fjármálaráðuneytið, til að mynda eru einhvers konar skattkerfisbreytingar og rannsókna- og þróunarendurgreiðslurnar þar þrátt fyrir að ábyrgðin sé — það er líka eitt af því sem þarf að skýra almennilega, hvort utanumhaldið sé eins og það á að vera. Og varðandi stofnanakerfið í heild sinni þá er það þarna undir. Við þurfum að horfa til þess hvort stofnanakerfið eins og það er í dag þjóni best hagsmunum frumkvöðla og nýsköpunarumhverfisins á Íslandi. Við getum alveg horft framan í það hvort við þurfum að skerpa á ákveðnum áherslum, breyta fókus og mögulega hætta að gera hluti sem við höfum verið að setja fjármuni í sem annaðhvort aðrir geta sinnt eða við setjum aðra þætti ofar á forgangslistann. (Forseti hringir.) Þar vil ég sérstaklega nefna, á þeim fjórum sekúndum sem ég er komin fram yfir, að mér finnst stafrænu smiðjurnar, sá þáttur, vera algjört lykilatriði til framtíðar og að við sinnum þeim úti um allt land (Forseti hringir.) þannig að krakkar geti miklu fyrr með miklu auðveldari hætti unnið með hlutina þannig að verðmæti verði til. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)