150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:58]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Fyrst varðandi Orkusjóð, þá eru vissulega að koma meiri fjármunir inn í hann núna í tengslum við orkuskiptin. Spurt er hvort það séu nægir fjármunir. Auðvitað erum við að setja mikla fjármuni í þennan málaflokk heilt yfir og það birtist síðan í umhverfisráðuneyti og í mínu ráðuneyti og á fleiri stöðum. En ég myndi sjá tækifæri ef það væru frekari fjármunir í sjóðnum til að flýta enn frekar ákveðnum breytingum. Það myndi raunverulega gera gagn. Við settum á þingmálaskrá frumvarp til laga um Orkusjóð, hvort hægt sé að breyta hlutverkinu enn frekar, og ég held að það geti verið ákveðin tækifæri í því þó ekki væri nema til að ná frekari samlegðaráhrifum og meiri samvinnu einkaaðila og ríkisins o.s.frv. Við erum auðvitað líka með Tækniþróunarsjóð og Rannís sem verkefni er varða loftslagsmál og orkumál fá úr og svo er líka á þingmálaskrá frumvarp, sem er hluti af nýsköpunarstefnu sem við förum fljótlega að tala almennilega um, um sjóð þar sem þessi þekking myndi finna sér farveg. Við vitum að við erum með framúrskarandi þekkingu í höndunum á þessu sviði.

Í dreifingarkostnað raforku erum við í dag að setja 980 milljónir sem dugir alls ekki til að jafna dreifingarkostnaðinn. Það væri hægt að tvöfalda þá upphæð. Þá myndu þeir sem ekki vildu samþykkja þriðja orkupakkann segja að nú væri strax búið að hækka raforkuverð, þrátt fyrir að það væri bara sjálfstæð ákvörðun okkar til að jafna dreifingarkostnað. Það er auðvitað líka hægt að setja það beinlínis á fjárlög. Ég er þeirrar skoðunar að það sem gildi um innviði líkt og vegi, fjarskipti, RÚV og aðra þætti — það er það sama alls staðar — eigi líka við um dreifingu raforku. Þessar virkjanir eru næstum því allar úti á landi og þetta eru þannig grunninnviðir að við landsmenn allir eigum að geta gengið að þeim á sama verði.