150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:00]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég þakka ráðherra svarið. Það er mjög mikilvægt það sem þar kemur fram. Ég ætla ekki að taka dansboðinu um umræðu um þriðja orkupakkann sem ráðherra bauð svo fallega. En mig langar engu að síður að ræða núna orkumálin eins og ég boðaði og allir bíða spenntir eftir. Allt þetta sem við erum að ræða er að sjálfsögðu til umræðu í nefndinni sem er að ræða orkustefnu fyrir Ísland. Sú hugmynd að setja okkur orkustefnu til nokkurra áratuga með einhverjum áföngum á leiðinni er gríðarlega góð hugmynd sem verður spennandi að sjá útfærsluna á og vinnan gengur vel. Allt styrkjakerfið sem við erum að ræða, þ.e. í nýsköpun og tækniþróun, hvernig við jöfnum aðstöðu allra landsmanna, er að sjálfsögðu hluti af þessu og, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, varðar þá grunnþætti sem við eigum öll að hafa aðgang að, hvar sem við búum. Þess vegna langar mig að ræða aðeins við ráðherra um þetta.

Ástæðan fyrir því að við erum að þessu, orkuskiptum og fleiru, er náttúrlega sú að við ætlum að ná kolefnishlutleysi. Mér hefur þótt vera vaxandi þungi í þeim hluta umræðunnar er snýr að Orkustofnun um að við getum nýtt þá stöðu sem við erum svo heppin að búa við hér á landi, nýtt okkar orkukerfi fyrst og fremst til að ná kolefnishlutleysi. Raunar þurfum við að ganga skrefinu lengra, þurfum í raun og veru að binda meira en við losum, ef við ætlum að taka þátt í því á heimsvísu að ná kolefnishlutleysi. En það er önnur saga.

Mig langaði að heyra skoðun ráðherra á þessu, hvort hún sé sammála mér um að það eigi að vera leiðarhnoða okkar þegar kemur að því að vinna orkustefnu, ásamt að sjálfsögðu öllu því sem við höfum rætt hér og náttúrlega ekki tæpt á nema örlitlu broti af því, en að leiðarhnoðað sé kolefnishlutleysi.