150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:03]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Forseti. Við gætum auðvitað tekið mjög langan tíma í að ræða um orkustefnu, enda eru þar á annan tug umræðuefna sem öll kalla á mikinn tíma til að tala um. Við erum auðvitað að reyna að vinna mjög flókið verkefni, bæði efnislega flókið og pólitískt flókið, en löngu tímabært og ég vona að við berum gæfu til að klára það verkefni. Það sem mér finnst skipta máli er aðgengi allra landsmanna að raforku og að það sé raunverulegt frelsi til búsetu. Það þýðir til að mynda það að maður sé með þrífösun rafmagns, að það sé hægt að koma rafmagni til manns, maður geti stofnað fyrirtæki á ákveðnu svæði á landinu, að það sé hægt, að flutningskerfið komi ekki í veg fyrir það eins og staðan er í raun núna. 85% af því sem við framleiðum fara auðvitað til nokkurra mjög stórra fyrirtækja sem eru okkur mjög mikilvæg og eru ástæða þess að við gátum byggt upp flutningskerfi á sínum tíma, með því að fá þau inn til landsins. Mér finnst mikilvægt að þau fyrirtæki fái að þróast og byggja sig enn frekar upp og að nýta vilja þeirra til að vera með nýskapandi lausnir, minnka enn frekar losun, að geta nýtt það samkeppnisforskot sem felst í því að framleiða þessa vöru þar sem raforkan er búin til með þeim hætti sem er gert hér. Ég vildi nefna það sérstaklega.

Orkuskiptin eru síðan mikilvæg fyrir samgöngur á landi, á hafi, fyrir ferðaþjónustuna og allt þetta, og ég held að við getum komið þeim á hraðar en við höfum kannski haldið hingað til. Ég held að það séu mikil tækifæri í því fyrir okkur sem land, bæði út á við og inn á við, samkeppnishæfni o.s.frv. og ég trúi því að sá þungi sem er í umræðunni núna muni skipta máli í þeirri vinnu sem fram undan er í orkustefnu.