150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:05]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Mig langar til að fara aðeins ofan í og spyrja um stöðu nýsköpunarfyrirtækja. Nú veit ég af þeirri ágætu nýsköpunarstefnu sem er á leiðinni og þeim breytingum sem stendur til að gera á styrkja- og sjóðakerfinu, sem er mjög gott. Það er samt spurning hvort ekki sé hægt að gera enn meira til að bæta rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja. Í nýsköpunarstefnunni eru lagðar til einhverjar breytingar sem við eigum eftir að sjá en ekki er augljóst að gert sé ráð fyrir einhverri eftirfylgni með þeim á þessu ári. Það er ekkert í þingmálaskránni sem bendir til þess, alla vega ekkert stórt sem snýr að því og ekkert sérstaklega í fjárlögunum sem slíkum. Hvar eru þær breytingar? Það er í rauninni spurning mín. Við gætum þurft að bíða ansi lengi eftir því að svona breytingar taki gildi. Það er oft þannig að rekstrarumhverfi fyrirtækja er seigfljótandi, erfitt er að breyta hlutum nema kannski um áramót og fleira kemur til. Við vitum að kostnaðurinn við að stofna og reka fyrirtæki á Íslandi er mjög hár. Það er vöntun á frekari ívilnunum fyrir nýsköpunarfyrirtæki, ákveðnir hlutir eins og t.d. að ráða erlenda sérfræðinga gætu verið einfaldari. Það er margsinnis búið að ræða þá hluti en ég hef ekki séð nógu sterk merki um að þetta sé að breytast. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur mikinn áhuga á því að breyta þeim hlutum. En hvar er það statt? Hvenær fáum við að sjá eitthvað á þann veg?