150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:11]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég leyfi mér að segja að við munum ekki bíða í þrjú ár með að byrja en verkefnið mun auðvitað taka tíma. Við ætlum ekki að taka þrjú ár í að móta umgjörð. Við höfum verið að vinna samkvæmt þingsályktuninni. Það er starfsfólk í mínu ráðuneyti sem hefur það á sinni könnu og hefur verið að funda víða og leggja mikla áherslu á þetta. Þetta snýst auðvitað líka um að forgangsraða þeim fjármunum sem við setjum í málaflokkinn í dag. Þess vegna finnst mér við líka þurfa að taka samtalið. Hvað er mikilvægast þegar kemur að nýsköpunarumhverfi? Eitt er rekstrarumhverfi, skattbreytingar, einhver sjóður og annað slíkt. Hitt er að spyrja: Hvernig undirbúum við framtíðarkynslóðir fyrir þær breytingar sem við erum að boða? Ég lít svo á að stafrænar smiðjur séu algjör lykilþáttur í því. Og þá finnst mér við líka þurfa að þora að spyrja: Í hvað fara peningarnir í dag? Viljum við mögulega breyta um kúrs til að leggja ofuráherslu á þennan þátt? Hver á að hafa það hlutverk? Hvernig byggjum við upp? Þetta hefur verið mjög handahófskennt fram til þessa. Smiðjurnar eru víða og þær eru framúrskarandi sums staðar. Við þurfum að byggja þetta upp markvisst.

Við munum ekki bíða í þrjú ár með að byrja. Ég vonast til þess að geta kynnt nýsköpunarstefnu, og stýrihópurinn sem vann hana, á allra næstu vikum. Þá setjum við þetta formlega í farveg. Ég fagna þingsályktuninni sem samþykkt var að frumkvæði Pírata (Gripið fram í.) og Samfylkingar og vonast til þess að hægt sé að vinna að henni í góðri samvinnu. Þetta er mikilvægt, þarna erum við að sá fræjum sem umhverfið þarf síðan að styðja við þegar þar að kemur. En ég vonast til þess að við getum byrjað sem allra fyrst, og í raun má segja að við séum byrjuð að vinna, en að við getum farið að boða og breyta mjög fljótlega.