150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:18]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og efast ekki um einlægan áhuga hennar á þessum málum og hvet hana til dáða. En þrátt fyrir að orkuauðlindir landsins séu í sameign þjóðarinnar og flutningsleiðir raforku einnig sitja landsmenn ekki við sama borð er kemur að flutningi á raforku til síns heima. Fer ég þarna á svipuð mið og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé áðan. Í landinu eru tvær gjaldskrár á flutningi rafmagns, þ.e. dreifbýlisverð og þéttbýlisverð. Undanfarin ár hefur munur á gjaldskránum aukist ár frá ári. Sé dæmi tekið frá þjónustusvæði Orkubús Vestfjarða kostar kílóvattstundin rúmlega 22% meira í dreifbýli en í þéttbýli. Það má kannski benda á að þó að sumir staðir, ég nefni Önundarfjörð, séu algjörlega sjálfbærir um raforku vegna smávirkjana sem þar eru þá þarf að horfa á eftir rafmagninu og kaupa það svo miklu dýrara verði þegar það kemur aftur til baka. Það er ljóst að það dregur í sundur milli dreifbýlis og þéttbýlis og núverandi jöfnunargjald er langt frá því að jafna þennan mun.

Í núgildandi byggðaáætlun falla verkefnin undir þrjú yfirmarkmið: Að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Undir hverju markmiði má finna markmið, þar á meðal verkefni sem stuðla að aukinni jöfnun orkukostnaðar í dreifbýli og þéttbýli. Því vil ég nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún sjái fyrir sér lausn í þessu máli og að nálgast þau markmið sem byggðaáætlun gerir ráð fyrir. Erum við að tala um eina gjaldskrá á flutningi á rafmagni eða hækkun á jöfnunargjaldi? Ég veit að þessi vinna fer fram í ráðuneytinu og miðar að því að finna leiðir að þessu marki. En hvenær er svo að vænta niðurstöðu af þeirri vinnu?