150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:24]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst til að svara spurningunni um meinta stefnubreytingu hvað varðar framlögin þá er svarið við því í rauninni: Nei, það er engin stefnubreyting. Við einfaldlega litum á það raunsætt að það tæki tíma að forma þennan sjóð. Það þarf að vanda mjög til verka og koma líka skilaboðunum áfram: Af hverju erum við að stofna hann? Hvernig á hann að líta út? Hvaða kröfur gerum við? Hvernig á að skipa hann? Hvert eigum við að leita? o.s.frv. Það er ástæðan fyrir því að við náum í rauninni ekki að koma honum á fót og byrja að fjárfesta innan þessa árs og þess vegna eru fjármunirnir lægri. Þeir fjármunir sem gert var ráð fyrir taka síðan við á árinu þar á eftir.

Varðandi umhverfið erum við hv. þingmaður ekki alveg sammála um gjaldmiðlamál og við höfum áður tekið þá umræðu hér, örugglega undir sömu formerkjum og nú. Ég er þeirrar skoðunar að skammstöfun gjaldmiðilsins skipti ekki öllu máli heldur allt ytra umhverfi. Mér finnst við hafa sýnt undanfarin misseri að við erum að ná miklu betri tökum á ytri þáttum, hér skiptir máli allur stöðugleiki, hvort sem það er stöðugleiki á vinnumarkaði, stöðugleiki í pólitíkinni o.s.frv. og ríkisfjármálin í stóru myndinni. Þeir þættir hafa áhrif á þróun gjaldmiðilsins. Ég finn fyrir því þegar ég fer og hitti nýsköpunarfyrirtæki, hvort sem þau eru stór eða smá, ný eða gömul, að það er ákveðinn samhljómur þar, mörg þeirra myndu gjarnan vilja hafa annan gjaldmiðil þannig að ég ætla ekki að þykjast ekki kannast við það. En nýsköpunarstefnan sem við höfum verið að vinna að gengur öll út á það að umhverfið hér sé betra en hefur verið og hvernig við komumst úr fyrstu tröppu sem nýsköpunarlandið Ísland í (Forseti hringir.) u.þ.b. þá fjórðu. Ég legg áherslu á og set mér það markmið að okkur takist að gera umhverfið þannig að við séum sérstaklega að trekkja að slík fyrirtæki og halda þeim hér á landi.