150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:27]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og ég ítreka að auðvitað fagna ég því að verið sé að auka framlög til nýsköpunar og þróunar. Ég held bara að til að vega á móti óhagstæðu rekstrarumhverfi þyrftum við jafnvel að margfalda þau frá þessum áformum til að það myndi tomma eitthvað upp í þau óhagstæðu rekstrarskilyrði. Það gleður mig að hæstv. ráðherra sé einmitt að hlusta á atvinnugreinina af því að ég veit að hæstv. ráðherra hefur líka lagt sig fram um það t.d. að vinna mjög náið með ferðaþjónustu, að skapa viðunandi rekstrarskilyrði. Ég horfi til þess sama og gerðist hjá nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Fótunum var skyndilega kippt undan samkeppnisstöðu atvinnugreinarinnar, ekki að litlu leyti út af gjaldmiðlinum þar sem á árinu 2016, 2017 og inn á árið 2018 var Ísland einfaldlega orðið allt of dýrt land. Það er aðeins að breytast núna en þetta undirstrikar aðeins þann vanda sem óstöðugur gjaldmiðill veldur útflutningsgreinum okkar og kemur svo skýrt fram einmitt hjá sprota- og tæknifyrirtækjum.

Ég hvet hæstv. ráðherra eindregið til þess að hlusta á atvinnugreinina hvað þetta varðar. Það stendur upp úr vel flestum fyrirtækjum á þeim markaði að vandamálið er gjaldmiðillinn, óstöðugleikinn sem honum fylgir, vaxtastigið sem honum fylgir og fyrirtækin sem komast á legg í því óstöðuga umhverfi velja undantekningarlítið að flýja land. Það er ástæðan fyrir því að hér hefur störfum ekkert fjölgað á rúmum áratug í þeirri atvinnugrein. Hér urðu til mjög margir efnilegir sprotar við hagstæð skilyrði í veikri krónu eftir hrun sem hafa einfaldlega valið að yfirgefa Ísland, byggja starfsemi sína upp annars staðar. Á slíku rekstrarumhverfi verður framtíðaratvinnugrein ekki byggð. Ég held að það sé orðið alveg fullreynt.