150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:29]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég er hjartanlega ósammála því að í slíku umhverfi verði atvinnugreinin ekki byggð upp frekar og það sé fullreynt. Það er rétt að gjaldmiðillinn, íslenska krónan, sveiflast. Í staðinn eru ákveðnir þættir sem sveiflast síður, eins og atvinnustig sem í öðrum löndum sveiflast mjög þrátt fyrir að gjaldmiðillinn sé stöðugur. Hvaða aðrir valkostir eru í stöðunni? Til að mynda að taka upp evru þar sem við höfum miklu minni stjórn en ýmis önnur lönd sem hafa þann gjaldmiðil. Ferðaþjónustan er atvinnugrein sem er í samkeppni við önnur lönd þar sem til að mynda laun eru miklum mun lægri og lífsgæði oft með öðrum hætti. Það er auðvitað ástæða fyrir því að laun eru há hér.

Fjallað er um óstöðuleika. Sú staðreynd blasir við að hann hefur minnkað og það er í okkar höndum að halda honum almennilega á réttum stað og vaxtastiginu sömuleiðis. Mér finnst við undanfarin ár hafa raunverulega tekið á þeim vanda sem við okkur blasir. Í gegnum árin höfum við ekki fylgt því. Við höfum bara verið að taka ákvarðanir sem við höfum alveg vitað hvert leiddu, hvort sem það er á vinnumarkaði eða öðru. Mér finnst við núna vera að laga það og horfa til lengri tíma og ég trúi því að það muni skipta máli.

Varðandi fyrirtækin sem fara héðan þá myndum við auðvitað aldrei geta keppt við launakostnað tölvuforritara í Búlgaríu eða öðru landi þar sem laun eru miklu lægri en hér, alveg sama hvaða gjaldmiðil við hefðum, við gætum ekki gert það. En það eru aðrir þættir sem við höfum og það eru líka önnur lönd sem eru með evru og stöðugri gjaldmiðil en glíma við sömu áskoranir, sama vanda sem er sá að þegar fyrirtæki verða ákveðið stór færa þau sig um set. Ég lít svo á að í sjálfu sér sé það ekki endilega alltaf vont að fyrirtæki fari úr landi. Það þarf að spyrja sig: Hvers vegna? Hvaða þættir eru hér? Hvenær er eðlilegt að fara eitthvert annað o.s.frv.? (Forseti hringir.) Ég er ekki sammála því að þetta sé fullreynt og ég sé ekki að aðrir valkostir myndu leysa öll þau vandamál (Forseti hringir.) sem við okkur blasa og munu gera áfram.