150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:32]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir upplýsingagjöf um forgangsmál og annað. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með. Þetta er risastórt ráðuneyti og þar eru mörg verkefni sem skipta okkur í heild afskaplega miklu máli. Við höfum verið að heyra t.d. í sambandi við ferðamálin, sem eru nú orðin stærsti liðurinn í innkomu í ríkissjóð og ótrúlegur fjöldi sem hefur atvinnu af þeim, að borið hafi á niðursveiflu eftir fall WOW. Kannski ekki stórri í stóra samhenginu í ljósi þess að hér hafa t.d. komið fram yfirlýsingar um að gistinóttum á hótelum hafi bara alls ekki fækkað hlutfallslega miðað við fækkun ferðamanna en í staðinn virðist sú tilhneiging vera hjá Airbnb, þar hefur verið fækkun.

Mig langar að vita: Er merkjanleg ákveðin tilfærsla? Hversu mikla fækkun hefur t.d. hæstv. ráðherra séð á gistinóttum í Airbnb? Má hugsanlega leiða að því líkur að þær stóru aðgerðir sem við höfum verið að grípa til í sambandi við að kortleggja betur þessa þjónustu Airbnb séu í rauninni kannski ástæðan fyrir þessari tilfærslu? Er ekki í rauninni merkjanlegt að við séum aftur að fara pínulítið upp á við?