150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að fara yfir stærstu atriðin í fjárlagafrumvarpinu sem eru á ábyrgðarsviði dómsmálaráðuneytisins. Málefnasviðin eru þrjú, fyrst er það 2. töluliður um dómstóla, 9. töluliður um almanna- og réttaröryggi og 10. töluliður um réttindi einstaklinga. Fjárlagafrumvarpið ber þess greinileg merki að ríkisstjórninni er umhugað um öryggi almennings og réttaröryggi í landinu. Tíminn er knappur en ég mun reyna að komast yfir helstu liði og hlakka svo til að taka þátt í umræðum um málefnasvið ráðuneytisins.

Heildargjöld málefnasviðanna þriggja eru áætluð 50,90 milljarðar kr. fyrir árið 2020 og aukast um tæpa 2,7 milljarða kr. á föstu verðlagi fjárlaga ársins 2019, sem samsvarar 5,7% hækkun. Að frádregnum launa- og verðlagsbreytingum hækka útgjöldin sem svarar til 2% hækkunar.

Ég vil byrja á málefnasviði dómstólanna en heildargjöld málefnasviðsins eru áætluð 3.384 millj. kr. og hækka um 77 milljónir sem svarar til 2,3% hækkunar. Án launa- og verðlagsbreytinga lækka útgjöldin sem svarar 1,2% á milli ára og helsta breytingin þar snýr að 39 millj. kr. lækkun framlags til Hæstaréttar vegna fækkunar um tvö stöðugildi hæstaréttardómara, sem er í samræmi við fyrri ákvarðanir Alþingis.

Annað sem snýr að dómstólum og vert er að nefna er aukin samræming og samkeyrsla stoðkerfa, rafrænn flutningur gagna til að auka hagkvæmni, skilvirkni og gagnaöryggi auk þess sem unnið er að rafrænni málsmeðferð. Þau verkefni voru fjármögnuð í fjármálaáætlun og allt er þetta í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um einföldun stjórnsýslunnar.

Þá er það málefnasvið almanna- og réttaröryggis. Þar eru heildargjöld áætluð 31.009 millj. kr. og aukast um 821 millj. kr. milli ára, eða um 2,7%, en að frádregnum launa- og verðlagsbreytingum lækka útgjöldin um 1% á milli ára. Raunbreyting framlaga einstakra málaflokka og málefnasviða snýst helst um að mæta 487 millj. kr. aðhaldskröfu sem er í gildandi fjármálaáætlun, en ráðuneytið ákvað að verja 244 millj. kr. innan ramma málefnasviðsins til að milda aðhaldskröfuna fremur en að veita í ný verkefni. Við það fer aðhaldsstigið í 243 millj. kr.

Framlögum til kaupa á þremur þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna verður haldið áfram og til þessa varið 2.100 millj. kr. á næsta ári, en verkefnið tafðist lítillega vegna tímafrekrar innleiðingar á nýjum leiguþyrlum sem áður voru í notkun hjá Gæslunni. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að útboð vegna kaupa á þremur nýjum þyrlum verði á fyrri helmingi næsta árs og afhending þeirra hefjist í árslok 2021 eða ársbyrjun 2022. Í gildandi fjármálaáætlun er þetta fullfjármagnað. Með uppbyggingu Landhelgisgæslunnar er unnið að því að auka öryggis- og þjónustustig í leit og björgun.

Af öðrum þáttum er innleiðing löggæsluáætlunar undir þessum lið, skilvirkt landamæraeftirlit og aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Tímabundin framlög til lögreglunnar í fjárlögum 2019 til aukins eftirlits á miðhálendinu og ferðamannastöðum auk aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi og til landamæraeftirlits, sem eru samtals 570 millj. kr., eru síðan gerð varanleg. Eins og á öðrum málefnasviðum ráðuneytisins er auk þess unnið að uppbyggingu réttarvörslugáttar með áherslu á skilvirka og örugga þjónustu.

Virðulegur forseti. Í þriðja lagi er það málefnasvið um réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýslu dómsmálaráðuneytisins. Þar eru fyrir árið 2020 áætlaðar 16.543 millj. kr. og hækka um 1.835 millj. kr. milli ára eða um 12,5%. Að frádregnum launa- og verðlagsbreytingum hækka framlög um 8,9%. Ef horft er til raunbreytinga í þeim málaflokki munar þar mest um 856,9 millj. kr. aukið framlag til þjóðkirkjunnar til að uppfylla kirkjujarðasamkomulagið svokallaða. Þá er það 398 millj. kr. framlag vegna forsetakosninga, 150 millj. kr. framlag til að styrkja rekstrargrundvöll sýslumannsembættanna og 137,5 millj. kr. til Útlendingastofnunar til að fjölga starfsmönnum á verndarsviði og til að mæta breytingum á afgreiðslu vegabréfaáritana. Á móti lækka síðan framlög í samræmi við markmið sem ríkisstjórn hefur sett fram um aðhaldsstig, um 290 millj. kr.

Mig langar að fá að nefna kirkjujarðasamkomulagið við þjóðkirkjuna. Það er rétt að taka fram að samningar tókust á milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar sem fela í sér aukið fjárhagslegt sjálfstæði þjóðkirkjunnar og þess vegna kemur sá peningur hér inn en ekki í fjáraukalögum eins og síðustu ár. En tíminn er á þrotum og ég vona að ég fái tækifæri til að svara spurningum. Þetta eru auðvitað málefni sem snerta samfélagið með margvíslegum hætti en ríkisstjórnin hefur á kjörtímabilinu stóraukið framlög til þeirra, sér í lagi til löggæslumála, og á næsta ári verður unnið áfram að því.