150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Það eru fleiri atriði sem mig langar að nefna, eitt svona almenns eðlis. Það er aðhaldskrafan sérstaklega á sviði lögreglunnar. Þar er gerð 325 millj. kr. aðhaldskrafa sem mér sýnist að ráðuneytið hafi mildað um 163 milljónir við afgreiðslu frumvarpsins en eftir stendur dálítið há upphæð, nærri 200 milljónir í aðhaldskröfu á nokkuð viðkvæmu og mikilvægu sviði. Mig langar einfaldlega að heyra hjá ráðherranum hvort hún hafi einhverjar hugmyndir um hvar sú aðhaldskrafa gæti lent. Ég hef sérstaklega áhyggjur af þeim málasviðum sem eru nýrri í verkefnum lögreglunnar og hefur gengið treglega að koma í fast ferli eins og t.d. rannsóknir á kynbundnu ofbeldi.

Og svo ég haldi mig enn við lögregluna þá langar mig að spyrja um annað. Nú höfum við átt því láni að fagna að Ísland hefur verið vinsæll áfangastaður fyrir erlend tiginmenni síðustu mánuði. Það kemur fram í fréttum að kostnaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, þess embættis eins, við móttöku Mike Pence hafi hlaupið á rúmum 14 milljónum og á sjöttu milljón hafi kostað að taka á móti Angelu Merkel og norrænum kollegum hennar. Hvernig er þeim kostnaði mætt? Það þekkir hver maður sem hefur skipulagt minnsta sveitaball eða hvaða samkomu sem er sem þarf á einhverri löggæslu að halda að greiða þarf þann kostnað. En hvernig er því er háttað þegar opinberir gestir í boði stjórnvalda koma og kosta embættin talsverðar fjárhæðir?