150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:08]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Varðandi aðhaldskröfuna í löggæslunni þá notuðum við einmitt, eins og hv. þingmaður nefndi, svigrúmið í málaflokknum til að draga úr aðhaldinu, fórum með það niður í um 1%. Það er auðvitað sama aðhaldskrafa á mörgum öðrum sviðum sem snerta viðkvæm málefni í fjárlögunum, það er hægt að nefna Landspítalann o.s.frv. Af 17 milljörðum er þetta kannski ekki mjög stórt í stóra samhenginu, en við eigum að vanda okkur. Hv. þingmaður nefnir sérstaklega kynferðisbrotin en það var bundið framlag, þ.e. auk þess sem það komu tæpar 300 millj. kr. í fjármögnun aðgerðaáætlunarinnar sjálfar voru 80 milljónir bundnar til þriggja ára til þessa.

Hvað varðar komu erlendra aðila hingað til lands eru opinberar heimsóknir almennt hluti af því sem fjárheimildir til löggæslunnar á fjárlögum fara í og það hefur ekki annað komið til tals. Ég geri ráð fyrir því að þetta sé kostnaður sem lögregluembættin bera og við höfum ekki hingað til verðlagt sérstaklega verkefni lögreglunnar. Þar er ekki sérstök gjaldskrá. Ég býst við að þetta eins og aðrar opinberar heimsóknir rúmist innan fjárheimilda á fjárlögum til lögreglumála.