150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:13]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þetta svar þótt ég myndi kannski vilja heyra aðeins meiri skuldbindingu gagnvart því að það gangi ekki að láta fólk bíða í hálft ár eftir því að fá umsókn um dvalarleyfi afgreidda, sama hvort það hliðrist eitthvað til þegar kemur nýtt starfsfólk inn í verndardeildina. Mér finnst ekki augljóst að það muni gerast. Við höfum fengið að heyra það þegar við erum að vinna ríkisborgaraumsóknir hér í þinginu að ekki sé hægt að vinna þær almennilega fyrir okkur af hálfu Útlendingastofnunar vegna þess að það fari svo mikill tími í að vinna hefðbundnar stjórnsýsluumsóknir. En svo heyrir fólk það sama hinum megin. Ég veit ekki hvort það dugi að bæta við starfsmönnum í einni deild þegar kemur að þeim mikilvæga málaflokki. Mér finnst ólíðandi að fólk þurfi að bíða í heilt ár eftir að fá umsókn sína um ríkisborgararétt afgreidda eða í hálft ár til að fá dvalarleyfisumsókn afgreidda. En nóg um það.

Ég vildi spyrja líka um sýslumenn. Ég sé að það stendur til að bæta rafræna stjórnsýslu og fara í einhverja vinnu þar. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það standi til að efla réttarvernd borgaranna hjá sýslumanni. Ég hef áhyggjur af því þegar sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setur lögbann á fjölmiðil tveimur vikum fyrir kosningar og það er búið að staðfesta það fyrir dómstól og öðrum dómstól að þetta gæti hafa haft áhrif á lýðræðislegar kosningar á Íslandi. Það er mjög alvarlegt. Stendur til að bæta réttarþekkingu hjá sýslumannsembættunum? Þau sitja líka undir því að það eru að koma endurtekið fram frásagnir af því að börn séu látin umgangast ofbeldisfull foreldri, jafnvel þegar dómur um annað liggur fyrir. Þetta er sýslumannsembættið að fyrirskipa. Jafnvel þegar mat sérfræðinga Barnahúss um ofbeldi af hálfu foreldris liggur fyrir skýlir sýslumannsembættið sér á bak við eitthvað sem það kallar foreldrafirringu til að neyða börn til að umgangast ofbeldisfull foreldri.

Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra: Hvað á að gera til að (Forseti hringir.) bæta réttarvitund og -þekkingu innan sýslumannsembættanna?