150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:16]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi Útlendingastofnun bind ég vonir við að við getum einfaldað málsmeðferðina og eflt ákveðið rafrænt kerfi til að hraða allri þessari málsmeðferð, sama að hvaða flokki það snýr innan stofnunarinnar, aukið rafræna flutninga á gögnum, eflt öryggi og gagnsæi. Það er falið í verkefninu um réttarvörslugátt og þar kemur líka inn stjórnsýsla Útlendingastofnunar. Ég bind miklar vonir við að það geti stytt allan málsmeðferðartíma hjá stofnuninni.

Varðandi sýslumenn er verið að skoða í stærra samhengi hvernig við getum bætt þjónustu við borgarana, réttarvernd þeirra og farið betur með fjármuni, ekki síst með meiri rafrænni stjórnsýslu til hagsbóta fyrir alla. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem eru á mínu borði og ég mun skoða mjög vel. Það gæti líka verið að kannski séu of mörg mál á borði eins sýslumanns og mörg verkefni sem við þyrftum að dreifa og sinna betur með ákveðnum hætti eins og hv. þingmaður nefnir. Þetta er auðvitað eitthvað sem ég mun skoða nánar á næstu dögum.