150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:24]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég þekki því miður ekki alveg hvernig vinnunni miðar um rafræna stjórnsýslu í útlendingamálum. Ég veit þó að hún er í gangi og bind auðvitað vonir við að hún gangi hratt og örugglega fyrir sig enda mikil tækifæri í því. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það eru tækifæri í störfum óháð búsetu og slíku en sýslumenn eru í eðli sínu handhafar framkvæmdarvalds í héruðum eða á svæðum til að fólk geti fengið góða þjónustu með hagkvæmum og skilvirkum hætti. Þetta þurfum við hugsa allt í samhengi við það hvert markmiðið er, þ.e. bætt þjónusta við borgarana en ekki síður betri nýting fjármuna með þeim tækifærum sem við höfum með stafrænni málsmeðferð og gagnvirkri upplýsingagjöf og öðru slíku.

Framtíðarsýn um sýslumannsembættin er í vinnslu. Ég hef nú þegar óskað eftir fundi um málið í ráðuneytinu og mun einhenda mér í að vinna það. Þetta þarf að gerast líka í góðri samvinnu með öllum embættum og öllum hlutaðeigandi. En ég held að þarna séu mikil tækifæri til að styrkja embættin, styrkja svæðin, en ekki síst til að styrkja þjónustuna við borgarana og skoða hvernig við getum gert það enn frekar á næstu misserum.