150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:26]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. 6. september sl. var fyrir margra hluta sakir merkilegur. Þá tók hæstv. dómsmálaráðherra við embætti sínu og óska ég henni til hamingju með það. Þann sama dag var skilað skýrslu um stöðu þjóðkirkjunnar í samanburði við önnur trúfélög og þann sama dag var einnig undirritað nýtt kirkjujarðasamkomulag. Fram kemur í fjárlagafrumvarpinu að talsvert auknum fjármunum er varið til þess að uppfylla það samkomulag. Um samkomulagið er auðvitað margt að segja. Í fyrsta lagi er sú þróun sem verið hefur varðandi aðild að þjóðkirkjunni. Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur þeim sem eiga aðild að þjóðkirkjunni fækkað hlutfallslega. Frá 1998–2008 hefur verið hlutfallsleg fækkun en frá árinu 2009 hefur verið raunfækkun, þ.e. þeim hefur beinlínis fækkað sem eiga aðild að þjóðkirkjunni og nú er svo komið, frá því sem var 1998 þegar 90% voru í þjóðkirkjunni, að það eru rúm 65%.

Ég hlýt að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra um álit hennar á því samkomulagi og hvort hún telji ásættanlegt að verið sé að auka framlög til þjóðkirkjunnar á sama tíma og greinilegt er að það er mikil fækkun og ekkert sem bendir til að það sé að snúast við (Forseti hringir.) og síðan er eiginlega þannig búið um hnútana að þó að allir hyrfu úr þjóðkirkjunni yrði samt sem áður skuldbinding fyrir ríkið að greiða 90 prestum og biskupi laun.