150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:28]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Það er kannski rétt að byrja á og árétta að þeir fjármunir sem fara núna inn í fjárlagafrumvarpið aukalega vegna þessa samkomulags hafa áður verið í fjáraukalögum. Það er betri bragur á því að komin sé á þetta ákveðin sýn, ákveðinn samningur sem við getum nú fylgt, þannig að það er ekki verið að auka fjármuni milli ára nema það sé bara talað um fjárlögin.

Nýi samningurinn felur í sér mikið fjárhagslegt sjálfstæði þjóðkirkjunnar. Það held ég að sé jákvætt þegar ríki og kirkja eru sammála um að einfalda lagaumhverfið og fyrirkomulag á þeim málum og þeim greiðslum sem þjóðkirkjan fær úr ríkissjóði og var undirrituð viljayfirlýsing þess efnis. Gerð er sú meginbreyting í þessu að kirkjan tekur sjálf við öllum starfsmönnum sínum og starfsmannamálum og þannig er gert ráð fyrir að lagaákvæði um laun sóknarpresta og aukaverk þeirra verði felld úr gildi núna og kirkjan muni hér eftir sjálf setja t.d. gjaldskrá fyrir aukaverk presta í stað ríkisins. Allt held ég að þetta séu breytingar til bóta og erum við að stíga stórt skref í þá átt að þjóðkirkjan verði fyrst og fremst trúfélag sem beri ábyrgð á sér sjálft og eigin rekstri og fjárhag. Eins og hv. þingmaður nefnir nýtur kirkjan stuðnings íslenska ríkisins líkt og kveðið er á um í stjórnarskrá en við þennan samning fjarlægist hún það mjög að vera ríkisstofnun. En áfram munu lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar gera ráð fyrir þessum tengslum.