150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:39]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að lögreglan í landinu er eldklár. Hún tekst á við mjög marga þætti í daglegum störfum sínum og þetta er einn af þeim. Ég hef mikinn hug á að athuga það og fá fram við hvað lögreglan er að glíima núna miðað við fyrir tveimur árum og miðað við fyrir tíu árum, hvernig verkefnin hafa breyst. Hvað er nýtt á borðunum? Eru stærri verkefni, stærri glæpahópar og þar fram eftir götunum sem við erum að horfa á og eru verkefni lögreglunnar? Það er þannig sem ég vil skoða málið. Ég ítreka þá skoðun mína að ég er ekki aðeins að tala um framtíðina þegar ég nefni verkefni á sviðum annarra ráðuneyta heldur hvernig við horfum á vandamálið. Við erum að auka fé í löggæslu en ég tel þetta líka vera mikið heilbrigðismál og við þurfum að horfa í augun á þeim sem eiga við fíknivanda að stríða og líta á það þannig en ekki aðeins að það sé verksvið lögreglunnar.