150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:48]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Fyrst vil ég nefna það hér að við Íslendingar rötuðum ekki í þessar aðstæður fyrir dóm Hæstaréttar Íslands eða EFTA-dómstólsins. Við rötuðum í þær aðstæður fyrir það að íslensk stjórnvöld gerðu þessa samninga á árunum 2003–2007 með þeim hætti að þau opnuðu fyrir það að fluttar yrðu til landsins vörur af öllum tegundum og gerðum og eina skilyrðið sem þau settu í þeim samningum var að lifandi búfé yrði ekki flutt til landsins. Þannig voru samningarnir. Og vegna þess að íslensk stjórnvöld gerðu slíka samninga á þessum árum dæmdi Hæstiréttur Íslands með þeim hætti sem hann gerði. Við getum verið ósammála eða sammála þeim dómum en Hæstiréttur er nú einu sinni æðsti dómstóll okkar.

Hv. þingmaður spyr hvernig staðan sé á þessu verki. Við samþykktum þingsályktun í vor sem var í 17 liðum. Ég segi það við hv. þingmann að þetta verk er á góðu skriði og hefur verið unnið að þeim málum í langan tíma, rúmt eitt ár, inni í mínu ráðuneyti vegna þess að það mátti eiginlega sjá algerlega fyrir hvert stefndi, hvernig samningsstaða Íslands var í þeim efnum eða staða fyrir dómstólum. Þetta eru, eins og ég gat um, 17 aðgerðir. Þær eru allar með einum eða öðrum hætti í vinnslu og eru fjármagnaðar á þessu ári og sú fjármögnun sem fékkst í fjárlögum þessa árs heldur sér í fjárlagafrumvarpi næsta árs, þó er bætt í að hluta, sérstaklega því sem lýtur að fjármögnun til að vinna gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería.