150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:51]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir ræðuna og yfirferð yfir það sem að ráðuneyti hans lýtur í frumvarpinu. Helstu verkefnin 2020 eru endurskoðun með eftirliti Fiskistofu, endurskoðun heilbrigðiseftirlits fyrir fiskeldi og svo endurskoðun á ráðstöfun 5,3% aflaheimilda og byggðafestu. Það sem mig langar að spyrja ráðherrann út í m.a. eru skelbætur sem eru búnar að vera á útleið, má segja síðan 2012. Það var gerður samningur þegar skelveiði hrundi í Breiðafirði 2003. Í einhver ár voru greiddar bætur sem áttu síðan að fjara út og svo þegar kom að því fóru menn á hverju ári að þurfa að sækja þessar bætur af því að það var í raun og veru ekkert búið að koma því á fasta grund. Á sínum tíma þegar þetta var sett í kvóta þurftu viðkomandi útgerðir að láta frá sér eða afsala sér þorskveiðikvóta eða hlutdeild. Ég veit að þeir hafa miklar áhyggjur af því núna, bara upp á atvinnustarfsemi, hvort ráðherrann er með í gangi einhverja vinnu í sambandi við það. Þótt skelveiðar séu byrjaðar aftur ganga þær ekkert mjög vel. Það er ekki mjög gott útlit. Aðilarnir sem að því koma vilja fá það á hreint hvort þeir geti fengið þorskígildin sín til baka sem þeim voru ekki afhent 1984.