150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin þó að þau valdi mér vissulega vonbrigðum, en ég geri ráð fyrir að við munum ræða þessi mál betur síðar á þessu löggjafarþingi.

Það er stefna stjórnvalda að miðað verði við að búið verði að kolefnisjafna Ísland fyrir árið 2040, ef ég man ártalið rétt, og ég held að það sé alveg augljóst að það verður ekki gert nema með víðtækum ráðstöfunum. Eitt af því er breytingar á neysluvenjum. Í þessu er mikilvægt, og það hefur margoft komið fram í ræðum, m.a. hjá hæstv. forsætisráðherra, að stjórnvöld leiði vagninn og það skiptir mjög miklu máli hvernig stjórnvöld setja niður merkin og setja niður hvata til að ná þessu markmiði. Þess vegna veldur það mér vonbrigðum að sjá ekki auknar fjárveitingar til þess að ýta undir íslenska grænmetisrækt. Ég get ekki séð það. Ég bið hæstv. ráðherra að benda mér á hvar það er ef það er einhvers staðar í fjárlagafrumvarpinu. Það vantar hvata til að bæta lýsingu og til að auka afköst. Það vantar hvata til að hækka gróðurhús, eldri gróðurhús sem fyrir eru. Það vantar hvata til að byggja ný. Það vantar stöðugleika í rafmagnsstyrkinn og kynslóðabrú á milli eldri bænda og yngri þannig að endurnýjun verði, og hvata til þess að rækta nýjar tegundir.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála mér að þarna eigi áherslan að liggja. Ég tek eftir því í frumvarpinu að meira er sett í nautgriparækt en til garðyrkjuræktar. Það er ekki alveg í samræmi við umræðuna um loftslagsvandann. (Forseti hringir.) Ég spyr þá bara að nýju: Getum við fundið eitthvað í þessa veru í óskiptum liðum, nýsköpunarliðum o.s.frv.?