150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Við munum fljótlega kynna, ég og hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, þá aðgerðaáætlun sem við höfum lagt fyrir ríkisstjórn og snýr að einföldun regluverks. Varðandi það sem snýr að mér þá horfi ég til þess fyrst af öllu að reyna að grisja þann reglugerðafrumskóg sem víða er um að ræða innan þeirra málaflokka sem undir mitt ráðuneyti falla og mun vonandi kynna það innan tíðar. Sömuleiðis er nauðsynlegt að fram fari ákveðin lagahreinsun, en stærsta viðfangsefnið sem þarna er við að glíma eða það sem kann að vera flóknast eru þessar svokölluðu eftirlitsreglur sem eru byggðar inn í lög um ýmsar stofnanir sem undir ráðuneytið heyra. Sérstaklega erfitt er það að mörgu leyti sem snýr að Matvælastofnun, sem m.a. tengist því sem hv. þingmaður nefnir, um áherslur. Hvernig mæta stjórnvöld þeirri áherslu sem oft heyrist heima í héraði, að við getum nýtt framleiðsluna betur og unnið vörur heima og neytt? Ég hef gefið fyrirmæli í ráðuneytinu og í Matvælastofnun og að því er unnið að leita allra leiða til að einfalda eftirlitsreglur sem standa í vegi fyrir því að slátrun geti farið fram í minni einingum. Það er mikil eftirspurn eftir því, m.a. frá samtökum sauðfjárbænda og einstökum bændum. Það hefur verið forgangsverkefni í mínum huga því að eftir þessu hefur verið kallað í langan tíma. Það verður hins vegar að játast að það er ákveðinn misskilningur úti í greininni varðandi þetta og ég er boðinn og búinn að leita allra þeirra leiða sem geta greitt fyrir því að þetta verði gert. En engu að síður megum við ekki slaka á heilbrigðiskröfum eða neinu þvílíku, það hefur engin áhersla verið innan míns ráðuneytis í þá veru.