150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt að það er mikil óvissa um loðnu. Þetta er mikil skýrsla sem tekin var saman að beiðni þingmanna stjórnarandstöðu. Ég vil nefna, af því að hv. þingmaður sem hér talaði skammaði mig blóðugum skömmum í blaðagrein í Morgunblaðinu fyrir að skila ekki skýrslu, að hún var löngu komin til þingsins. Þannig sitjum við oft uppi með ómaklegar flengingar af hálfu stjórnarandstöðunnar þegar hún vinnur ekki verk sín nægilega vel og gengur ekki eftir því að þau gögn sem hún sjálf hefur beðið um hafi komið í hús.

Hins vegar er rétt að (Gripið fram í.) ekki horfir vel um loðnuna. Eins og hv. þingmaður sagði þarf kraftaverk til að hún vaxi með þeim hraða sem við öll óskum en um leið og hún nefndi orðið kraftaverk spurði hún til hvaða ráðstafana ríkisstjórnin ætlaði að grípa. Það er ánægjulegt að vita til þess hversu mikla tröllatrú hv. þingmaður hefur á ríkisstjórninni um að við getum búið til kraftaverk á sviði lífríkisins í hafinu. Það er flóknara mál en svo. Við verðum sjaldnast í stakk búin til að byggja upp einhverjar aðgerðir til stuðnings öðrum stofnum. Loðnan flytur orku inn í lífkerfið okkar og er gríðarlega mikilvægur fæðugjafi fyrir aðrar tegundir sem þar lifa. Sömuleiðis er þetta gríðarlega mikil undirstaða byggðar og atvinnurekstrar í mörgum bæjarfélögum. Við höfum ekki rætt það neitt sérstaklega. Ég leyfi mér bara að nefna að uppi varð fótur og fit varðandi það að eitt flugfélag fór illa í gjaldþrot fyrir ekkert mjög löngu síðan og þá voru menn uppi með hugmyndir um (Forseti hringir.) að veita þeim bæjarfélögum og atvinnurekstri sem fóru illa út úr því sjálfsagða fyrirgreiðslu eða aðstoð eftir föngum en við gerðum ekkert slíkt varðandi það áfall sem fylgdi loðnubrestinum.