150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:43]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir. Ég hefði síst haldið að hann ætlaði að drífa sig inn á sviðið um skýrsluna og tímasetningarnar því að það er alrangt að sú kona sem hér stendur hafi ekki reynt að fylgja því eftir hvar í veröldinni loðnuskýrslan væri stödd. (Gripið fram í.) Ég var búin að gera það margsinnis frammi á þingskrifstofu en þetta sýnir samspil framkvæmdarvaldsins og þeirra sem vinna hérna. Þessi skýrsla var í rafrænu formi og neitað að taka við henni af því að hæstv. ráðherra harðneitaði að fylgja formreglum sem eru nákvæmlega í þessu formi, útprentuð frábær skýrsla, takk fyrir hana, en að ég hafi gefið í skyn að hér væri kraftaverkaríkisstjórn er mesti misskilningur. (Sjútvrh.: Nú?) Hins vegar sagði ég að það þyrfti kraftaverk til (Sjútvrh.: Þú kallaðir …) ef hingað kæmi allt í einu loðna. Mig langar aftur að vísa í það sem stendur á bls. 92, að loftslagsbreytingar og hlýnun sjávar valdi vaxandi óvissu um marga nytjastofna. Þá langar mig að beina til hæstv. ráðherra spurningu um hvað hafi verið gert í ráðuneyti hans til að reyna að afmarka þetta betur. Hvernig sér hann fyrir sér óvissu, samanber í Kanada þar sem þorskurinn gufaði upp í kjölfar þess að loðnan hvarf? Þar í sjónum var reyndar kólnun en ekki svona mikil hlýnun eins og hjá okkur. Ég spyr hvað hafi verið gert og hvaða óvissuþætti við erum helst að tala um sem fram koma í skýrslunni? Hvaða nytjastofna telur hæstv. ráðherra sérstaklega að við þurfum að vernda og hvernig ætlar hann að bregðast við?