150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:56]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Frú forseti. Fram hefur komið að Sjúkratryggingar Íslands hafa í undirbúningi útboð vegna þjónustu sjúkraþjálfara. Ég hef orðið þess var í samtölum við sjúkraþjálfara að þeir hafa vegna þessa nokkrar áhyggjur vegna skjólstæðinga sinna. Minnumst þess, frú forseti, að sjúkraþjálfarar gegna mikilvægu forvarnastarfi. Þeir gera fólki kleift að sækja störf sem fólk gæti annars ekki rækt og gera eldri borgurum kleift að búa lengur en ella á heimilum sínum. Hér er undir mikilvægur félagslegur þáttur um virka þátttöku í samfélaginu, auk hins heilsufarslega þáttar. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvert er markmiðið með umræddu útboði? Á að skerða þjónustu sjúkraþjálfara? Sér þessa stað í fjárlagafrumvarpinu? Hefur ráðherra ekki áhyggjur af því að afleiðing þessa verði að færri geta rækt störf á vinnumarkaði og öldruðum gert erfiðara að búa á heimilum sínum? Getur ráðherra staðfest að útboðið nái ekki til sjúkraþjálfara sem rækja störf sín á heimilum skjólstæðinga sinna heldur verði samið við þá?