150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:07]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega svo að á nánast öllum alþjóðlegum mælikvörðum er íslensk heilbrigðisþjónusta ekki bara viðunandi heldur mjög góð. Hins vegar mætti hún vera betri og þess vegna þurfum við að skerpa okkur bæði í stefnumótun og í forgangsröðun. Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður segir, ekki síst um það hvernig búið hefur verið að Landspítalanum um langt árabil. Ég vil þá kannski sérstaklega nefna þá staðreynd að í aðdraganda hrunsins, áður en við vorum komin í raun og veru á aðhaldstímabil í íslenskum stjórnmálum vegna efnahagshrunsins, horfðum við upp á niðurskurð fyrir Landspítalann og raunar alla opinberu heilbrigðisþjónustuna. Eins og ágætt fólk hefur sagt við mig á Landspítala: Það er fljótlegt að skera niður en það er mjög seinlegt að byggja upp. Það getur verið verkefni sem er bæði snúið og krefjandi og tekur langan tíma. En við erum að því.

Hv. þingmaður spyr líka um einstaka þætti varðandi greiðsluþátttökuna. Ég er sammála þingmanninum um að það sem á að vera þar í forgrunni er fólk sem er í veikri stöðu. Þegar við erum að draga úr greiðsluþátttöku eigum við, frekar en að fara bara þvert á alla þátttökuna, að horfa sérstaklega til þeirra hópa sem eru í hvað viðkvæmastri stöðu. Þá erum við að tala um hópa eins og þá sem hv. þingmaður nefnir og við höfum fengið ábendingar sem snúast um mismunandi sjúkdóma sem koma með mismunandi hætti út úr lyfjakostnaði o.s.frv. og það er óásættanlegt. Það erum við að skoða núna þegar við erum að taka ákvörðun um það hvert við setjum peningana til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga.

Hv. þingmaður spyr líka um stöðu Landspítala og staðan núna er sú að ráðuneytið vinnur með Landspítalanum að því að greina stöðuna betur og greina þær aðgerðir sem unnt er að grípa til. Ég vonast til þess að við getum verið með skýrari svör hvað það varðar og væntanlega getum við líka rætt það betur og skýrar á vettvangi hv. velferðarnefndar.