150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta er náttúrlega algjör grundvallarspurning. Það er kannski einfaldasta nálgunin gagnvart öllum kerfum og allri þjónustu að auka einfaldlega við fjármagn. En við vitum að það er um leið afar mikilvægt að staldra reglulega við og hugsa: Erum við að nýta fjármagnið eins vel og verður á kosið? Í íslensku samfélagi erum við bæði með mjög stórt land og tiltölulega fáa íbúa. Við erum með mjög krefjandi aðstæður að mörgu leyti en við erum ríkt land og við erum með sterkan grundvöll í ríkissjóði til að vera í fremstu röð og við erum það í heilbrigðisþjónustunni.

En til að tryggja að við fáum sem mest fyrir fjármagnið er það fyrst og fremst tvennt sem mig langar til að nefna til að svara hv. þingmanni: Annars vegar gerum við það með því að skilgreina og skýra betur hvaða þjónustu eigi að veita á hverjum stað. Það er mjög dýrt kerfi sem beinir fólki fyrst á bráðamóttöku háskólasjúkrahúss við öllum meinum. Með því að beina fólki meira inn á fyrsta stigs þjónustuna, að heilsugæslan sé styrkt og standi undir nafni, spörum við til lengri tíma litið vegna þess að þá erum við að nýta krafta Landspítala, háskólasjúkrahúss og rannsóknarstofnunar, þar sem þeir kraftar eiga að vera nýttir.

Annað sem mig langar að nefna, sem verður líka til þess að tryggja skynsamlegri ráðstöfun fjár, eru þeir fjármunir sem fara í samninga við aðila sem veita þjónustu í gegnum samninga. Um leið og við erum markvissari í því hvaða þjónusta það sé sem við viljum fá, sem við viljum kaupa, og að hún sé skilgreind á forsendum þeirra sem þjónustuna þurfa en ekki þeirra sem hana veita, þá eru meiri líkur á því að við nýtum fjármagnið betur. Það eru sóknarfæri þarna.