150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:17]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hún hafi gengið úr skugga um að í þessum fjárlögum sé nægt fjármagn til að veita nauðsynlega þjónustu. Þetta er nokkuð sem ég hef gert ítrekað, líklega frá árinu 2014 fyrir fjárlög 2015. Við þingmenn getum sent erindi til aðila sem málið varðar með beiðni um umsagnir þegar við erum að vinna að breytingartillögum. Ég hef gert það og þá hef ég sent það á allar heilbrigðisstofnanir landsins, Sjúkrahúsið á Akureyri, háskólasjúkrahúsið í Reykjavík, heilsugæsluna í Reykjavík og svo til hinna sex heilbrigðissvæða víðs vegar um landið. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að ráðherra hafi talað við allar þessar stofnanir og gengið úr skugga um að þær fái nægilegt fjármagn til að mæta nauðsynlegum rekstri. Það er spurning sem ég hef alltaf spurt og alltaf fengið þau svör að hjá flestum hafi vantað upp á. Það er einstaka sinnum sem svo hefur ekki verið. Ég held að síðasti hæstv. ráðherra hafi talað sérstaklega við heilbrigðisstofnanir á suðvesturhorninu og þar bættist við eitthvert fjármagn.

Ég spyr hvort ráðherra geti farið yfir nauðsyn þess og þá mögulega getið þess hvar verið er að gefa í til að byggja upp eftir það gríðarlega fjársvelti sem hefur verið í svona langan tíma.