150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:22]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Þá er vangaveltan hvernig heilbrigðisstefnan spilar inn í þetta. Það er náttúrlega DRG-kerfið þar sem borgað er fyrir þá þjónustu sem er raunverulega veitt og svo geri ég ráð fyrir því að með stefnunni sé rammað inn hvaða þjónustu skuli veita og hvar, eins og hæstv. ráðherra nefnir, að hún sé raunverulega veitt þar sem gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga koma saman. Það á að vera það sem heilbrigðisstefnan miðar að.

Hvernig var samtalinu háttað við þessar heilbrigðisstofnanir? Ég hef í hyggju að senda þeim erindi og spyrja hvað þeim finnist. Þá fæ ég a.m.k. upplýsingar frá þeim um hvað þeim finnst. Það væri gott að fá að vita hjá ráðherra hvernig samtalið hefur verið við vinnslu fjárlagafrumvarpsins um fjárveitingu til heilbrigðisstofnananna, hvernig samtalið hefur verið við heilbrigðissvæðin níu á Íslandi, hve langt það er komið, hvort það sé orðið gott samstarf víða eða hvað, eitthvert lítilræði sem stendur út af eða hvort það sé grundvallarágreiningur um einhverja þætti og þá hverja og hvernig sé unnið að því að laga það. Hæstv. ráðherra segir að nauðsynleg þjónusta og nægilegt fjármagn eigi að passa raunverulega saman þannig að þeir sem gæta að öruggri heilbrigðisþjónustu fyrir landsmenn og þeir sem veita fjármagnið verða að vera samstilltir og samstiga og sammála um að svona skuli þetta gert.