150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:24]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr sérstaklega um samskipti ráðuneytisins og stofnananna. Að því er varðar undirbúning fjárlaga og fjármálaáætlunar eru þau hefðbundin, þ.e. stofnanirnar eru í reglulegu samráði við ráðuneytið um verkefnin fram undan.

Það sem hefur kannski bæst við á mínum tíma varðandi samstarf við stofnanirnar er í fyrsta lagi það sem ég nefndi aðeins áðan, að fara út um land og vera með stofnununum í því að tala við viðkomandi heilbrigðisumdæmi. Í heilbrigðisstefnu gerum við ráð fyrir því að forstjóri viðkomandi heilbrigðisstofnunar sé í raun og veru umdæmisstjóri, beri meiri ábyrgð en bara á sinni stofnun, beri líka ábyrgð á samþættingu þjónustunnar í sínu umdæmi. Við höfum komið á föstum fundum sem eru samráðsfundir allra forstjóra heilbrigðisstofnananna sem geta þá á sameiginlegum fundi rætt sameiginlegar áskoranir. Stundum eru þær sameiginlegar og fólk getur jafnvel hjálpast að, það getur fengið góðar hugmyndir til að leysa mál o.s.frv. og getur miðlað þeim. Það skiptir máli og ekki síður þegar við erum að tala um verkefni þar sem Landspítalinn sinnir einhverju en síðan á heilbrigðisstofnun í heimabyggð að taka við. Þá skiptir máli að vera með opinn og sameiginlegan vettvang.

Við gerum líka ráð fyrir því, og það er í samræmi við heilbrigðisstefnu, að forstjóri heilbrigðisstofnunar komi reglulega á fund ráðuneytisins og fari yfir tilteknar kennitölur rekstursins og faglegrar þjónustu þannig að við fylgjumst með tilteknum þáttum sem við erum sammála um að skipti mestu máli.

Af því að hv. þingmaður spurði sérstaklega um þjónustuna verð ég að nefna hér að við erum núna komin með inn í grunninn nýjar 200 millj. kr. til að bæta tækjakost úti um land, sem er löngu tímabært, og á yfirstandandi ári þar að auki 200 millj. kr. til að koma sérstaklega til móts við þörf á myndgreiningarbúnaði. (Forseti hringir.) Við höfum verið að gefa í frá því að þetta voru reglulega 20 millj. kr. á ári yfir í þessar tölur og það skiptir gríðarlegu máli. Það finnur maður þegar maður talar við þessar stofnanir.