150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:28]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og vil kannski byrja á því að grípa boltann þar sem hún sleppti honum varðandi heilsueflandi heimsóknir og þjónustu við aldraða. Eitt af þeim áherslumálum og áhersluverkefnum sem ég hef á mínu borði er að við verðum að endurmeta og endurskoða þá nálgun að ætla okkur að leysa þjónustu við aldraða fyrst og fremst með hjúkrunarrýmum. Við þurfum að hafa fjölbreyttari og, hvað á ég að segja, sveigjanlegri úrræði og þá ekki síður að færa úrræðin eins og við getum nær fyrsta stigs þjónustunni. Það erum við að gera til að mynda með heilsueflandi heimsóknum en líka með því að auka heimahjúkrun, með því að bjóða upp á sveigjanlega og fjölbreytta dagdvöl o.s.frv. Maður finnur að það er gríðarleg deigla í gangi alls staðar um allt land hvað þetta varðar og mikill áhugi á því að hugsa út fyrir boxið og fara út úr því hefðbundna samningaumhverfi sem hefur verið, hefðbundnu nálgunininni, og yfir í meira af skapandi og fjölbreyttum lausnum.

En af því að hv. þingmaður spyr síðan sérstaklega um stöðu þessara heilbrigðisstofnana úti um land og hvort ráðuneytið sé meðvitað um mismunandi eðli þeirra, liggur mér við að segja, þá er það auðvitað svo að ráðuneytið er í nánum og tíðum samskiptum við heilbrigðisstofnanirnar. En að mínu mati verður það mat að vera viðvarandi. Við getum ekki einhvern tímann sett punkt aftan við það að nú sé því mati lokið vegna þess að eitt af því sem við þurfum að gera er að skoða þetta líka út frá íbúaþróuninni og félagslegri og atvinnulegri þróun á hverju svæði. Eftir að hafa farið um landið í sumar með heilbrigðisstefnu er ég kannski uppteknust af sérstöðu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða annars vegar og Austurlands hins vegar vegna þess hversu langt er að sækja baklandið þaðan í hvort sem er Landspítala eða sjúkrahúsið á Akureyri. Ég held að við þurfum að horfa enn þá meira á þá staðreynd í því hvernig við tryggjum viðunandi forsendur fyrir rekstri þessara stofnana.