150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Enn þakka ég hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég segi að það sem ætti að vera meginmarkmið okkar varðandi það að tryggja aðgengi íbúa landsins, óháð búsetu, að sérgreinalæknum eða annars stigs þjónustu og svo þriðja stigs þjónustu eftir atvikum, er að reyna að nálgast það sem mest þannig að færa þjónustuna til fólks. Það er í raun og veru þannig sem við viljum nálgast það. Það er nær að flytja einn heilbrigðisstarfsmann út á land heldur en 50 íbúa til Reykjavíkur. Það er útgangspunktur og ég held að mjög miklu máli skipti að nálgast það þannig.

Þess vegna erum við að hugsa um ýmsa þætti. Einn af þeim er sá sem hv. þingmaður nefnir, ferðakostnaðarreglugerðin, en aðrir eru að auka samstarf við Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri með að bera ábyrgð á og styðja við þjónustu sérgreinalækna úti um land, að þetta sé þáttur sem við tökum á í gegnum samninga við Sjúkratryggingar Íslands, og að bæta sjúkraflutninga. Með nýju sjúkrahóteli erum við auðvitað að bæta þessar aðstæður. En hins vegar tek ég undir það sem hv. þingmaður segir, ég er algerlega meðvituð um að þessi ferðakostnaðarreglugerð er 15 ára gömul. Hún hefur ekki verið uppfærð frá árinu 2004. Hún er eitt af því sem ég er með á mínu borði þegar ég er að skoða það hvernig við ætlum að ráðstafa fé til þess að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Þó skal það tekið fram, þannig að það sé sagt í þessari umræðu, að ferðakostnaður fellur ekki inn í skilgreiningu á kostnaði sjúklinga við heilbrigðisþjónustu. Þegar við erum að tala um að bera saman milli landa er það að jafnaði ekki hluti af þeim útreikningum hversu mikið sjúklingar greiða til að komast á milli staða til þess síðan að njóta þjónustunnar, bara svo það sé alveg á hreinu, að fjármagn sem fer þangað breytir ekki hlutfallinu í stóru myndinni.