150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:39]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið og ég er efnislega algjörlega sammála öllu því sem þar kom fram. En það virðast ekki fara saman orð og aðgerðir vegna þess að á sama tíma og verið er að undirbúa þetta útboð hafa sjúkraþjálfarar kallað eftir fundum, kallað eftir að fá að eiga aðkomu að útboðslýsingunni. Því hefur ekki verið sinnt þannig að þarna eru sílóin sannarlega enn þá til staðar, það hafa ekki verið brotnir niður veggir. Ég er búin að kynna mér þessi útboðsgögn og mér sýnist aðaláherslan þar vera nákvæmlega á einingaverð, fjöldann og svona. Fyrir leikmann a.m.k., ef þetta er lesið hratt yfir, er markmiðið að ná niður kostnaði. Aukin greiðsluþátttaka og nýtt greiðsluþátttökukerfi á að nást inn með launum sjúkraþjálfara án þess að taka tillit til mikilvægis þeirra og hvað þeir spara í kerfinu annars vegar. Þess vegna þarf að spyrja um það og mér er svo sem sama hvort þau svör nást í gegnum eitthvað sem heitir endurhæfingarstefna heilbrigðisyfirvalda, sem kemur í febrúar, eða heilbrigðisstefna eða eru dregin upp úr hattinum inni í ráðuneyti, bara að það fylgist að vegna þess að þetta er mikilvægt fyrsta skref í þessu.

Ég ætlaði reyndar í seinni hálfleik að taka það smáatriði sem Landspítalinn er. Þetta er ekkert sérstaklega einfalt, hvorki fyrir fyrirspyrjanda né svaranda en við eigum eftir að tala mikið um þessi mál hér í sölum þingsins, í velferðarnefnd og auðvitað líka í fjárlaganefnd. Það sem mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra um núna er að það hefur verið að koma aukið fjármagn inn í starfsemina, ráðherra hefur unnið þétt með stjórnendum Landspítalans undanfarið og samt er þessi staða uppi sem hlýtur að vera ráðherra áhyggjuefni sem og okkur öllum. Spurningin, þegar við erum að ræða fjárlög, er: Hvaða sannfæringu hefur hæstv. ráðherra fyrir því að fjárlagafrumvarpið núna leysi þennan vanda Landspítalans? Erum við að halda áfram á þessari vegferð? Hvaða tilfinningu hefur ráðherra fyrir þessu? Ég veit að stórt er spurt og svarið er ekki til staðar hjá hæstv. ráðherra frekar en öðrum, en tilfinningin engu að síður.

Þessu til viðbótar langar mig að (Forseti hringir.) varpa fram spurningu sem lýtur að því hvaða augum hæstv. ráðherra lítur þá hugmynd að setja óháða rekstrarstjórn yfir spítalann. (Forseti hringir.) Það er pólitísk stjórn. Það eru fagaðilar til staðar. Þetta eru risafjármunir. Þetta eru hagsmunir okkar allra. (Forseti hringir.) Er þetta eitthvað sem ráðherra getur hugsað sér að skoða sem stuðning?