150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:44]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar. Hún er sannarlega með þann málaflokk sem er ekki hvað síst krefjandi, málaflokkinn um heilbrigðismálin okkar sem skorar hvað hæst þegar fólk er spurt hvað það setji í fyrsta sæti yfir allt hvað eina; það eru heilbrigðismálin. Ég ætla ekki að fara að tala um vaxandi biðlista eða 175 eldri borgara sem bíða eftir hjúkrunarrýmum. Ég ætla ekki að tala um hvernig gengur að manna eitt eða neitt.

Ég ætla að byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir samt sem áður. Ég ætla að tala um það sem við höfum átt samtal um nánast frá því að ég kom inn á þing og hef ég sannarlega ekki gefist upp á því. Búið er að gera samning við SÁÁ hjá Sjúkratryggingum Íslands en staðreyndin er sú að núna rétt fyrir mánaðamótin voru þeir búnir að fá 35,5 millj. kr. af þeim 150 milljónum sem löggjafarvaldið, fjárveitingavaldið, heimilaði til útborgunar í desember sl. Að hugsa sér að í ágúst var búið að greiða 35,5 milljónir og þær eru núna í september orðnar tæpar 50. Þriðjungurinn hefur skilað sér. Eins og ég skil það hefur hæstv. heilbrigðisráðherra tilkynnt að nú ætli hún að veita 50 milljónir sérstaklega til að koma til móts við ungu fíklana sem hún hafði áður ráðgert að myndu fara inn á Landspítala – háskólasjúkrahús, en það er ekki tilbúið eins og staðan er núna.

Fyrsta spurningin er þessi: Hvaða 50 milljónir eru þetta, hæstv. heilbrigðisráðherra? Er þetta hluti af þeim 150 milljónum sem fjárveitingavaldið var að setja inn í fíknivandann og SÁÁ í desember sl.?