150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina, hugleiðingar hans og sérstakan áhuga á menntamálum. Varðandi framhaldsskólastigið skulum við hafa það alveg á hreinu að það er engin lækkun til framhaldsskólanna. Um er að ræða tímabundið framlag sem féll niður til stigsins sem slíks. Hins vegar erum við áfram að tala um hækkun á hvern nemanda vegna styttingarinnar og að það verði 5% hækkun fyrir alla þá sem eru í starfsnámi. Við leggjum sérstaka áherslu á stafrænar smiðjur og ég verð að segja alveg eins og er við þennan sal að ég er mjög ánægð með að allir þeir fjármunir sem ráðgert var að færu af framhaldsskólastiginu fyrir u.þ.b. þremur árum eru áfram þar inni.

Ég vil líka upplýsa hv. þingmann um að ég kom fyrir fjárlaganefnd um daginn og eitt af því sem hefur verið að gerast er að það er talsverður afgangur á framhaldsskólastiginu, nánast milljarður, vegna þess að við höfum sett meiri fjármuni til framhaldsskólastigsins. Við ætlum að nota þessa fjármuni til þess að bæta aðstöðu á framhaldsskólastiginu. Sumir spyrja: Hvers vegna er þessi afgangur? Ég tel að við séum búin að vera að auka í raun og veru það mikið til framhaldsskólastigsins að sumir skólar hafi jafnvel ekki áttað sig á því og ekki nýtt fjármunina sem slíka. Ég mun koma seinna að háskólastiginu en ég vil að þetta sé alveg á hreinu. Ég er mjög ánægð með hvað við höfum náð að hafa mikla fjármuni og haldið þeim inni á framhaldsskólastiginu.