150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:12]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og ítreka það sem ég sagði hér áðan að nemendum hefur náttúrlega fækkað þannig að það er kannski ekki óeðlilegt að það hafi orðið hækkun á framlögum á hvern nemanda. En mig langar í seinni ræðu minni að víkja talinu aðeins að málefnum Listaháskólans sem hefur verið á hrakhólum frá stofnun. Það var ráðist í að gera frumathugun á húsnæðisþörf skólans. Það var gerð þarfagreining og valkostagreining. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í niðurstöður hennar og hvert planið sé — og svo hitt, hvort bráðavandi LHÍ hafi þá verið fullleystur í millitíðinni.