150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður beindi sjónum sínum að menntun á landsbyggðinni. Ég get sannfært hv. þingmann um að okkur er mjög umhugað um að það sé mjög fjölbreytt námsúrval á landsbyggðinni. Varðandi Verkmenntaskólann á Austurlandi sérstaklega erum við markvisst að setja starfsnám í forgang þannig að það kemur mér að einhverju leyti á óvart að þarna nefni skólastjórnendur að gera þurfi betur, en við munum skoða það sérstaklega. En við höfum verið að forgangsraða í starfsnámið, bæði tíma og fjármunum. Og af hverju erum við að gera það? Það er vegna þess að þegar við skoðum önnur menntakerfi er hlutfall brautskráðra miklu hærra úr bóklegu námi á Íslandi en til að mynda starfstækni og iðngreinum og við vitum að mikil eftirspurn er eftir slíku vinnuafli á vinnumarkaðnum. Eitt af því sem ég hef líka verið að vinna að er að það sé aukin fjölbreytni, til að mynda frumvarpið um lýðskóla. Það miðar að því vegna þess að við sjáum að brotthvarf er hærra á Íslandi en í samanburðarlöndunum, en að hluta til skýrist það vegna þess að vinnumarkaðurinn hefur verið mjög öflugur og kvikur.

Ég er mjög meðvituð um Hallormsstaðaskóla og við vitum að hann hefur verið að gera ákveðnar breytingar og við höfum trú á þeim breytingum.